Við tókum í gegn gamalt fellihýsi – Ótrúleg umbreyting!

En í fyrra þá keyptum við okkur fellihýsi frá árinu 1999 – og það má segja að það hafi verið í klassísku vintage-ástandi.
Ljótt ullarklæði á pullum, blettir á gólfi, segli og hurð. Síðan var þessi týpíska fellihýsa innrétting sem er ekki að gera neitt fyrir neinn. Auðvitað sá þokkalega á því – erum ekki að tala um nýtt hýsi.

Fellihýsið var í ansi hráu ástandi þegar við fengum það í hendur – það vantaði dýnur, og við sáum strax að margt þyrfti að laga til að gera þetta að notalegu rými.

Gólfið var blettótt og hurðin sýndi greinileg merki um tíma og notkun. Slitið fluganet og víða mátti sjá svarta bletti sem kröfðust góðrar hreingerningar. Innréttingarnar voru þreyttar og langt frá því að endurspegla okkar stíl eða smekk. Sófinn alls ekki fallegur og sjálfsagt aldrei þrifinn.

Við tókum ákvörðun um að gera þetta almennilega – og vá hvað það borgaði sig.
Breytingin var algjör!

Við höfum núna 2x prófað að fríska upp á fellihýsi – en í fyrra skiptið fórum við ekki alveg jafn mikið "all in" í breytingarnar. Það leit líka betur út, en það var frá 2002 ef mig minnir rétt. Í það skiptið, skiptum við bara um gardínur og máluðum og filmuðum innréttingu. Það gerði auðvitað alveg helling fyrir hýsið en ekkert á við það sem þetta sem við gerðum við hýsið sem við erum með núna. Þetta var allt annað level.

Við byrjuðum á því að kaupa eggjabakkadýnur í Jysk. Það eru því ekki bara komnar dýnur í hýsið, heldur eru þær talsvert þykkari en þessar sem koma upprunanlega í þeim.

Við tókum sófapullurnar og djúphreinsuðum (getið ekki ýmindað ykkur drulluna !) og klæddum svo allar pullurnar í nýtt áklæði - Sjúklega mikill munur ! Ótrúlegt hvað áklæði getur gert mikið fyrir heildarsvipinn.
S´ðan settum við upp nýjar gardínur sem setti ferskan blæ og tónaði rýmið saman.

Til að lífga upp á útlitið enn frekar notuðum við filmur úr Bauhaus á skápa og yfirborð, tókum gyltu og gömlu handföngin af og skiptum út fyrir svarta hnappa og settum svo límdúk á gólfi. 

Að sjálfsögðu lögðum við líka mikla vinnu í að þrífa, pússa og betrumbæta hvert horn. Smáatriðin skipta máli – og saman skilaði þetta ótrúlegri umbreytingu, sem gerði þetta gamla og vel notaða fellihýsi að miklu huggulegra hýsi sem er notarlegt að eyða útilegunum í.

Við eigum eftir að fínpússa smá – bæta við kósý lýsingu, smá skrauti og kannski snjöllum geymslulausnum.
En stærsta breytingin er þegar búin – og við gætum ekki verið ánægðari með útkomuna.

Ef þú ert með gamalt fellihýsi eða ferðavagn sem þarf kærleika, þá mæli ég með að þú prófir!
Það þarf ekki að kosta mikið – og alls ekki svo erfitt!